Með­ferð kvartana

Með­ferð kvartana

Við höfum það að leiðarljósi að starfsemi Straums sé í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Hluti af því er að bregðast fljótt og vel við ábendingum og kvörtunum sem okkur berast frá okkar viðskiptavinum.

Straumur vinnur eftir reglum móðurfélags síns, Kviku um meðferð kvartana. Tilgangur þeirra er að tryggja að ferli við úrvinnslu kvartana viðskiptavina sé sanngjarnt, gagnsætt og að úrvinnslu- og svartími mála sé eins skammur og kostur er. Þá er tilgangur reglnanna einnig að koma í veg fyrir mistök starfsmanna bankans eða brot á lögum og reglum endurtaki sig.

Hafi viðskiptavinur einhverjar ábendingar eða kvartanir vegna meintra mistaka Straums og/eða starfsmanna Straums á framkvæmd laga eða reglna getur hann komið því til skila með því að senda rafræna ábendingu í gegnum „hafðu samband" boxið hér fyrir neðan. Straumur heldur utan um kvartanir og meðhöndlun þeirra. Straumur fylgir reglum Fjármálaeftirlitsins um meðhöndlun kvartana og samskipti við viðskiptavini sem sjá má hér.

Réttar­úrræði viðskipta­vina

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki

Ef viðskiptavinur er ósáttur við þau svör sem Straumur veitir, getur hann beint kvörtun sinni til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sem fjallar m.a. um ágreining viðskiptavina við fjármálafyrirtæki. Kvörtun til úrskurðarnefndarinnar skal afhent Fjármálaeftirlitinu skriflega á sérstöku eyðublaði sem má nálgast á skrifstofu eftirlitsins og heimasíðu þess. Erindi skulu send til:

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki
Guðrúnartún 1,
105 Reykjavík
Tölvupóstur: fjarmal@nefndir.is
Sími: 578-6500

 

Upp­lýsinga- og leið­beininga­þjónusta Fjármála­eftir­litsins

Fjármálaeftirlitið leiðbeinir viðskiptavinum eftirlitsskyldra aðila. Í því felst að leitast er við að leiðbeina aðilum um þau úrræði sem þeir hafa til að ná fram rétti sínum, m.a. hvaða aðilar fari með úrskurðarvald í þeirra málum og aðrar almennar leiðbeiningar. Sjá nánar á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

 

Dóm­stólar

Aðilar geta leitað réttar síns fyrir almennum dómstólum hafi ágreiningsefnið ekki verið undanþegið lögsögu þeirra með lögum eða samningi.

 

Neytenda­stofa

Neytendastofa er ein þeirra eftirlitsstofnana sem hafa eftirlit með viðskiptalífinu og lögum frá Alþingi sem sett eru vegna öryggis og réttinda neytenda. Á heimasíðu Neytendastofu er m.a. unnt að nálgast upplýsingar um það í hvaða tilvikum og með hvaða hætti neytendur geta leitað til stofnunarinnar, telji þeir að réttur sé á þeim brotinn.

Hafðu samband

Hér getur þú sent inn athugasemd eða ábendingu

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver Straums er opið alla virka daga 9 – 16