Fréttir /

Nýr straumur í greiðslu­miðlun

12.04.2023

Nýtt fjártæknifyrirtæki, Straumur greiðslumiðlun hf., sem hlaut þann 30. mars síðastliðinn starfsleyfi frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem greiðslustofnun, hefur starfsemi á næstu dögum. Straumur greiðslumiðlun hf. er dótturfélag Kviku banka hf. sem var stofnað eftir kaup Kviku á söluaðilasafni frá Valitor í tengslum við samruna Rapyd og Valitor. Söluaðilasafnið sem flyst til Straums er um 25% af íslenska færsluhirðingarmarkaðnum. 

Straumur mun bjóða upp á allar helstu lausnir greiðslumiðlunar, þar á meðal helstu posa- og veflausnir auk þess að kynna nýjungar á greiðslumiðlunarmarkaði á næstu misserum. Straumur gerir ekki kröfur um önnur viðskipti fyrirtækja. 

„Við erum spennt að hefja þessa vegferð með viðskiptavinum okkar. Það hafa orðið miklar breytingar í greiðslumiðlun á síðustu árum og enn eru mikil tækifæri til að bæta þjónustu við söluaðila og viðskiptavini þeirra. Við höfum sett okkur markmið um framúrskarandi þjónustu til að auðvelda söluaðilum lífið með einföldum og þægilegum lausnum og við hlökkum til að kynna nýjungar á markaðnum þegar fram líða stundir,“ segir Lilja Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Straums

„Með tilkomu Straums heldur Kvika áfram að umbreyta fjármálaþjónustu á Íslandi. Við viljum auka samkeppni í íslenskri greiðslumiðlun eins og við höfum gert á öðrum sviðum. Á undanförnum misserum höfum við fjárfest í uppbyggingu Straums með það að markmiði að auka tekjudreifingu Kviku. Það er ánægjulegt að sjá félagið hefja starfsemi og að fjárfesting okkar skili nýjum tekjum sem fela í sér tækifæri að byggja upp öflugt og arðsamt félag,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka.

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver Straums er opið alla virka daga 9 – 16