Leiðbeiningar og reglur

Sér­stak­ar leið­bein­ingar kort­afélag­anna um bíla­leigur  

Þessar reglur gilda um þær heimildir sem bílaleigur hafa til að skuldfæra greiðslukort

Skilmálar 

  • Bílaleiga skal birta skilmála við bókun á þjónustu áður en bókun eða kaup á netinu er lokið
  • Skilmálana ber að birta í sama glugga og bókun/kaup eru staðfest
  • Óheimilt er að birta skilmála í sér glugga eða á sér vefslóð
  • Söluaðili ber að senda korthafa skilmála í tölvupósti með bókunarstaðfestingu
  • Nánari upplýsingar um afbókunarskilmála getur þú nálgast hér
  • Skilmálar bílaleigu sem afhendir eru á pappír ber að kynna fyrir korthafa og verður korthafi að samþykkja þá með undirskrift sinni á sömu blaðsíðu og skilmálarnir eru settir fram. Ef korthafi samþykkir tryggingu bílaleigu (CDW) þarf tryggingin að vera staðfest sérstaklega af leigutaka með upphafsstöfum hans, þar sem undirritun leigusamnings tekur ekki til þessa ákvæðis

Við upphaf leigu 
  • Við upphaf leigu bifreiðar má bílaleiga sækja um heimild á greiðslukort fyrir áætlaða upphæð leigukostnaðar
  • Áætluð heildarupphæð heimildarbeiðnar má ekki innihalda kostnað vegna sjálfsábyrgðar eða tryggingu fyrir mögulegu tjóni
  • Ef endanlegur leigukostnaður fer umfram upphæð heimildar ber að sækja um nýja heimild fyrir mismuninum

Visa korthafar  

Um skuldfærslu vegna tjóns og sjálfsábyrgðar Visa korthafa gilda eftirfarandi reglur 

Ef í ljós kemur að tjón hafi orðið á leigutíma eftir að bifreið hefur verið skilað og korthafi er ekki á staðnum má bílaleiga skuldfæra upphæð tjónamats að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum: 

  • Skrifleg tilkynning um tjón og áætlaðan kostnað þarf að berast innan 10 daga frá skilum bifreiðar ásamt því að gefa korthafa 20 daga til að mótmæla áður en greiðslukort hans er skuldfært. Þá þarf samþykki korthafa fyrir skuldfærslu að liggja fyrir vegna sjálfsábyrgðar mögulegs tjóns (Self risk). Korthafi þarf að hafa samþykkt tryggingaskilmála bílaleigunnar með undirskrift sinni á sömu blaðsíðu og skilmálarnir eru birtir og með upphafsstöfum sínum við viðeigandi lið sjálfsábyrgðar
  • Eftirfarandi þarf að fylgja tilkynningu tjóns til korthafa: 
    - Gögn sem útskýra tjónið og sýna fram á að tjón hafi orðið á leigutíma
    - Tjónaskýrsla, lögregluskýrsla og vátryggingaskírteini ef það á við
    - Tvö tjónamöt – Þurfa að vera frá aðskildum, viðurkenndum verkstæðum og skal lægra tjónamatið gilda
    - Útlistun á hver hlutur korthafa sé á móti tryggingum vegna tjóns og hvers vegna.
    - Upplýsingar til korthafa um að skuldfærsla vegna tjóns með greiðslukorti korthafa sé valkvæð og korthafa gefin kostur á að greiða tjónið á annan hátt

Korthafi þarf alltaf að gefa skriflegt samþykki fyrir skuldfærslu tjóns á korti. 
  • Skuldfærsla vegna tjóns þarf að vera aðskilin skuldfærslu vegna leigu eða leigukostnaðar
  • Sækja þarf um heimild, eftir að tjón á sér stað, fyrir upphæð tjónamats eða þeirri upphæð sem korthafi samþykkir. Upphæð skuldfærslu tjóns má ekki vera hærri en upphæð sem korthafi samþykkir né hærra en verðmat bifreiðar sé hún dæmd ónýt
  • Skuldfærsla vegna tjóns þarf að gerast innan 90 daga eftir að leigu bifreiðar lýkur
  • Ef raunkostnaður tjóns reynist vera lægri en skuldfært var á greiðslukort korthafa þarf bílaleiga að endurgreiða mismuninn innan 30 daga

American Express og MasterCard korthafar 

Um skuldfærslu vegna tjóns og sjálfsábyrgðar American Express og MasterCard korthafa gilda eftirfarandi reglur. 

Ef í ljós kemur eftir að bifreið hefur verið skilað að tjón hafi orðið á leigutíma og korthafi er ekki á staðnum má bílaleiga skuldfæra upphæð tjónamats að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum: 

  • Ávallt þarf samþykki korthafa fyrir skuldfærslu tjóns eftir að tjónamat hefur farið fram. Það þarf að fylgja undirrituð greiðslukvittun og ábyrgðayfirlýsing (undirskrift á bílaleigusamningi sem inniheldur ákvæði um skuldfærslu mögulegs tjóns, uppfyllir ekki skilyrði um skriflegt samþykki fyrir skuldfærslu tjóns)
  • Skuldfærsla vegna tjóns þarf að vera aðskilin skuldfærslu vegna leigu eða leigukostnaðar
  • Skilgreina þarf hver hlutur korthafa sé á móti tryggingum vegna tjóns og hvers vegna
  • Sækja þarf um heimild, eftir að tjón á sér stað, fyrir upphæð tjónamats eða þeirri upphæð sem korthafi samþykkir. Upphæð skuldfærslu tjóns má ekki vera hærri en upphæð sem korthafi samþykkir né hærra en verðmat bifreiðar sé hún dæmd ónýt
  • Korthafi þarf að samþykkja tryggingaskilmála bílaleigunnar með undirskrift sinni á sömu blaðsíðu og skilmálarnir eru birtir og með upphafsstöfum sínum við viðeigandi lið sjálfsábyrgðar
  • Skuldfæra þarf American Express kort fyrir kostnaði vegna tjóns innan 90 daga frá því að leigu bifreiðar lýkur  
  • Skuldfæra þarf MasterCard kort fyrir kostnaði vegna tjóns innan 30 daga frá því að leigu bifreiðar lýkur
  •  Ef raunkostnaður tjóns reynist vera lægra en skuldfært var á greiðslukort korthafa  fyrir þarf bílaleiga að endurgreiða mismuninn innan 30 daga

Annar tilfallandi kostnaður 

Heimilt er að skuldfæra eftirfarandi kostnað af korthafa eftir að bifreið hefur verið skilað: 

  • Vegatollar 
  • Umferðalagabrot 
  • Stöðvunarbrotagjöld 
  • Eldsneyti 

Óski Straumur eftir viðbótargögnum vegna skuldfærslu eftir að leigu líkur, t.d. vegna umferðalagabrota, skal bílaleiga afhenda slík skjöl, þ.m.t. með skráningarnúmer bifreiðar, tíma og stað brots ásamt upphæð og gjaldmiðli.   

Bílaleiga skal ganga frá færslukvittun vegna skuldfærslu  eftir á og skrifa „signature on file“ í undirskriftareit. 

  • American Express og Visa kort þarf að skuldfæra fyrir ofangreindum kostnaði innan 90 daga frá því að leigu bifreiðar lýkur
  • MasterCard kort þarf að skuldfæra fyrir ofangreindum kostnaði innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar um sekt frá hluteigandi yfirvöldum 
  • Umsýslugjald fyrir ofangreindum kostnaði má skuldfæra á kort ef það er sérstaklega tekið fram í bílaleigusamningi sem korthafi undirritar

Athugasemd korthafa vegna skuldfærslu tjóns 

Berist athugasemd/endurkrafa til Straums frá kortaútgefanda vegna tjóns, ber bílaleigu að senda Straumi afrit af eftirfarandi skjölum sé þess óskað: 

  • Undirritaður leigusamningur ásamt uppgjörssamningi
  • Tjónamat frá viðurkenndu verkstæði (tveimur viðurkenndum verkstæðum í tilfelli VISA korta)
  • Lögregluskýrslu ef það á við
  • Afrit af vátryggingarskírteini bílaleigu ef bílaleiga krefst þess að korthafi greiði sjálfsábyrgð í tengslum við tjón
  • Skilmálum bílaleigu með undirskrift/upphafsstöfum korthafa
  • Samþykki korthafa fyrir skuldfærslu tjóns á kortið
  • Ef um American Express og MasterCard kort er að ræða þarf að liggja fyrir samþykki eftir að tjónamat hefur farið fram með ábyrgðayfirlýsingu og undirritaðri greiðslukvittun
  • Ef um Visa kort er að ræða þarf að sýna fram á að korthafa hafi verið send tilkynning um tjón ásamt viðeigandi gögnum sem tilgreind eru hér fyrir ofan ef ekki liggur fyrir samþykki korthafa eftir á fyrir skuldfærslu tjóns
  • Færlukvittun
  • Önnur gögn sem geta skipt máli


Geri korthafi athugasemd/endurkröfu við skuldfærslu á korti vegna tjóns þar sem framangreindum reglum hefur ekki verið fylgt getur bílaleiga átt von á því að skuldfærsla vegna tjóns verði bakfærð. Í slíkum tilfellum þarf bílaleigan sjálf að innheimta tjónið á annan hátt. Það er á ábyrgð bílaleigu að leigusamningar standist kröfur dómstóla, þar sem í sumum tilfellum er það eina úrræði bílaleigu til að innheimta kostnað vegna tjóns bílaleigubifreiðar.  

Hægt er að hafa samband við Straum með því að senda póst á straumur@straumur.is ef nánari upplýsinga er óskað.  

Ofangreindar reglur taka mið af reglum American Express, MasterCard og Visa og geta tekið breytingum eftir birtingu.  

Reglur birtar apríl 2023.  

Straumur greiðslumiðlun hf.  

Here you can find instructions and rules for car rentals in english.

Hvernig getum við aðstoðað?

Þjónustuver Straums er opið alla virka daga 9 – 16